Sjúkdómar breiðast út á Haítí

Reuters

Sjúkdómar á borð við niðurgang, mislinga og stífkrampa breiðast nú út á meðal þeirra sem lifðu af jarðskjálftana á Haíti, að sögn starfsmanna Sameinuðu þjóðanna. Margir hafast við í frumstæðum tjaldbúðum.

Mikið af hjálpargögnum og hjálparstarfsmönnum hefur komið til Haiti. Nú er talið að um 170.000 manns hafi farist í jarðskjálftanum fyrir 17 dögum. Um milljón manna er án heimilis og bæði skortir lyf, mat og vatn.

Paul Garwood, talsmaður Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, sagði að sveitir heilbrigðisstarfsmanna hafi orðið varar við vaxandi útbreiðslu niðurgangs á undanförnum dögum. „Það er einnig greint frá tilfellum mislinga og stífkrampa, þar á meðal í búðum sem komið hefur verið upp fyrir heimilislausa. Það veldur áhyggjum vegna þess hve þar er þéttbýlt,“ sagði Garwood á blaðamannafundi í Genf í dag.

Stofnanir Sameinuðu þjóðanna og yfirvöld á Haíti ætla að byrja fjöldabólusetningu í næstu viku þar sem bólusett verður gegn mislingum, stífkrampa og barnaveiki. Áður en jarðskjálftinn brast á höfðu einungis 58% ungbarna á Haiti verið bólusett. 

Mikill skortur er á skurðlæknum en gerðar eru 30 - 100 aflimanir á degi hverjum í sumum sjúkrahúsanna. Farið er að bera á skorti á deyfilyfjum og sýklalyfjum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert