Þeir eru allt annað en upplitsdjarfir bankamennirnir sem nú eru á förum frá Davos í Sviss, þar sem árlegu efnahagsþingi lýkur í dag. Eftir að hafa setið undir skömmum frá stjórnmálamönnum, embættismönnum og fjárfestum í fjóra daga, eru stjórnendur stærstu banka heims eflaust fegnir að komast aftur í fílabeinsturna sína.
Tillögur Baracks Obama bandaríkjaforseta um aðgerðir til að takmarka stærð og umfang fjármálastofnana, m.a. með því að banna bönkum að eiga hluti í vogunarsjóðum, voru meðal þess sem rætt var á ráðstefnunni.
Eins og við var að búast brugðust bankamenn strax illa við tillögunni. En eftir að hafa setið undir stöðugum skömmum í Davos hafa þeir margir hverjir, að sögn AFP-fréttastofunnar, viðurkennt að þörf sé á nýjum reglum til að draga úr áhættu í fjármálakerfinu.
Samhæfing nauðsynleg
Bæði stjórnmálamenn og bankamenn lögðu á þinginu áherslu á nauðsyn þess að alþjóðasamfélagið tæki sig saman um slíka reglusetningu, enda væru um alþjóðlegt vandamál að ræða. Obama var jafnvel gagnrýndur - þótt óbeint væri - fyrir að hafa upp á sitt einsdæmi stungið upp á áðurnefndum aðgerðum, án mikils samráð við leiðtoga annarra ríkja.
Bankamenn bentu á að til lítils væri að setja strangar reglur einungis í hinum vestræna heimi, enda yrðu vestrænar fjármálastofnanir þá undir í samkeppni við asískar.
Þá sagði Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, að ekki megi gleyma mikilvægi samstillingar í efnahagsaðgerðum - enda væri það einn aðal lærdómurinn sem draga má af kreppunni.