Angela Merkel, kanslari Þýskalands, fékk lélega einkunn í fræðum Marx og Leníns á námsárum sínum í Austur-Þýskalandi kommúnismans. Þetta kemur fram í úttekt Der Spiegel í dag.
Að loknu þriggja ára námi í Marx-Lenínisma gaf Joachim Rittershaus prófessor Merkel henni einkuninna „viðunandi“. Merkel var þá 29 ára gömul. Þremur árum síðar skilaði hún lokaritgerð í námsgreininni og fékk þá sömu lágu einkunnina. Ritgerðin er nú týnd, að sögn Der Spiegel.
Merkel fékk hins vegar ágætiseinkunn í eðlisfræði og lauk hún síðar doktorsprófi í þeirri grein. Der Spiegel kveðst hafa þurft að fara dómstólaleiðina til að komast yfir einkunnir kanslarans. Merkel hafi neitað þar til nú að leyfa aðgang að upplýsingum um námsferil sinn.
Merkel hóf ekki stjórnmálaafskipti fyrr en Berlínarmúrinn féll fyrir tveimur áratugum. Hún náði skjótum frama í mið-hægri Sambands kristilegra demókrata (CDU). Hún hefur verið kosin kanslari Þýskalands tvö kjörtímabil í röð.
Forbes tímaritið hefur valið Angelu Merkel valdamestu konu heimsins undanfarin fjögur ár.