Hörkuvetur í Danmörku

Það er kafsnjór í Sønderborg syðst í Danmörku.
Það er kafsnjór í Sønderborg syðst í Danmörku. Sigursteinn Sævarsson

Danir búa sig undir stórhríð á morgun og spáir danska veðurstofan mjög slæmu veðri. Varað er við fljúgandi hálku á vegum. Reiknað er með að kuldakastið í Danmörku standi a.m.k. 10-12 næstu daga, að sögn Berlingske Tidende. 

„Ég tók tali Dani í morgun sem muna ekki annan eins snjó síðan 1978,“ sagði Sigursteinn Sævarsson flugvirki sem býr í Sønderborg á eynni Als, syðst í Danmörku nálægt landamærunum við Þýskaland. 

Sigursteinn sagði Danina heldur ekki muna eftir að snjór hafi verið jafn lengi yfir og nú. Hann sagði að í Sønderborg hafi byrjað að snjóa um miðjan desember og ekki tekið upp síðan. 

Skólar eru meira og minna lokaðir vegna ófærðarinnar. Það á einkum við um framhaldsskóla þar sem nemendur koma um langan veg í skólann. Bílar eru víða fastir og herinn hefur verið kallaður út til að bjarga fólki.

Nýliðinn janúar var sá kaldasti í 23 ár að sögn dönsku veðurstofunnar (DMI). Í frétt hennar kemur m.a. fram að meðalhitinn hafi verið -3,2°C. Meðalhiti í janúar á árabilinu 1961-1990 er 0,0°C. Meðalhitinn í janúar 1987 var -4,7°C eða 1,5°C lægri en nú. 

Janúar 2010 var ásamt bróður sínum árið 1891 12. kaldasti mánuður frá því mælingar hófust í allri Danmörku árið 1874. Kaldasti janúar frá upphafi mælinga var 1942 þegar frostið var að meðaltali -6,6°C. Nú var frost alla daga janúar en að meðaltali mælist frost 19 sólarhringa í janúar í Danmörku.

Danmörk er snævi hulin víðast hvar þessa dagana og er fannfergið óvenju mikið. Í dag var lognið á undan storminum þótt snjóað hafi í Suður-Jótlandi, á Suður-Fjóni, Lálandi-Falster og Suður-Sjálandi. 

Búist er við að hann bresti á með stórhríð í Suður-Jótlandi þegar í fyrramálið. Fólk er varað við að vera á ferli að óþörfu. Björgunarfélög og dönsku járnbrautirnar eru þegar búin að setja sig í stellingar vegna óveðursins.

Danska veðurstofan spáir frosti og vetrarveðri næstu 10-12 daga. Þá herma fréttir að Danir kaupi nú vetrardekk undir bíla sína í stórum stíl.

Snjórinn hefur hamlað umferð í Sønderborg og víðar.
Snjórinn hefur hamlað umferð í Sønderborg og víðar. Sigursteinn Sævarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka