Stjórnvöld í Ísrael hafa viðurkennt að tveir háttsettir foringjar í her landsins hafi verið ávíttir fyrir að beita fosfórsprengjum í hernaðinum á Gaza-svæðinu á síðasta ári.
Hvítur fosfór hefur verið notaður í sprengjur til að lýsa upp vígvöll eða mynda reykjarmökk til að gera fjandmanninum erfitt að sjá hvað væri að gerast, en bannað er að beita slíkum vopnum nálægt byggðum svæðum. Lendi fosfórinn á holdi getur hann valdið alvarlegum brunasárum.
Í skýrslu suður-afríska dómarans Richards Goldstones á vegum Sameinuðu þjóðanna var Ísraelsher sakaður um að hafa beitt fosfórsprengjum á Gaza-svæðinu í 22 daga hernaði sem hófst í desember 2008. Í svari Ísraelsstjórnar við þessari ásökun kemur fram að tveir herforingjar hafi verið ávíttir fyrir að „fara út fyrir valdsvið sitt“ með því að fyrirskipa hermönnum sínum að beita fosfórsprengjum í árás 15. janúar á síðasta ári.
Þetta er í fyrsta skipti sem Ísraelar skýra frá því að herforingjar hafi verið ávíttir í tengslum við hernaðinn á Gaza-svæðinu. Þetta er jafnframt í fyrsta skipti sem Ísraelar viðurkenna að fosfórsprengjum hafi verið beitt þannig að óbreyttum borgurum hafi stafað hætta af þeim.
Í skýrslu Goldstone voru Ísraelar og einnig liðsmenn Hamas-samtakanna sakaðir um stríðsglæpi í átökunum á Gaza-svæðinu. Hamas-samtökin hafa neitað því að þau hafi gert árásir af ásettu ráði á óbreytta borgara.