Nýbirt rannsókn sýnir að áhersla á kynlífsbindindi í kynfræðslu barna hefur þau áhrif að merkjanlegur hluti þeirra dregur að hefja kynlíf. Þetta gæti reynst lóð á vogarskálar í þeirri viðleitni að forða ungmennum frá ótímabærum þungunum og kynsjúkdómum.
Niðurstöður rannsóknarinnar voru kynntar í dag, að sögn Washington Post. Sagt er að þessi rannsókn sé fyrsta rannsóknin sem er vandlega sniðin til að meta umdeilda nálgun kynfræðslu.
Rannsakendur komust að því að einungis um þriðjungur nemenda í 6. og 7. bekkjum bandarískra skóla þar sem áhersla var lögð á bindindissemi hóf að lifa kynlífi á næstu tveimur árum.
Öðru máli gegndi um nemendur sem komu úr bekkjum þar sem ekki var lögð áhersla á bindindissemi, þótt kennt væri um getnaðarvarnir. Nærri helmingur þeirra fór að lifa kynlífi á næstu tveimur árum.
„Ég tel að við höfum afskrifað kennslu með áherslu á bindindi án þess að gaumgæfa eðli vísbendinganna,“ sagði John B. Jemmott III, prófessor við University of Pennsylvania, sem stýrði rannsókninni. Hún var kostuð af opinberu fé. „Rannsókn okkar sýnir að þetta gæti verið nálgun sem hægt væri að nota.“
Niðurstöður rannsóknarinnar birtust í Archives of Pediatric & Adolescent Medicine. Þær birtast á meðan deilt er um hvernig hægt sé að draga úr kynlífi, þungunum, fæðingum og útbreiðslu kynsjúkdóma á meðal barna og unglinga.
Það dró úr þungunum og útbreiðslu kynsjúkdóma meðal bandarískra táninga í meira en áratug en tíðni þeirra er aftur farin að aukast.