Gert er ráð fyrir því að fjárlagahallinn í Bandaríkjunum í ár nemi 1.600 milljörðum Bandaríkjadala og verði meiri en nokkru sinni fyrr frá síðari heimsstyrjöldinni sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, samkvæmt fjárlagafrumvarpi sem stjórn Baracks Obama forseta leggur fram í dag.
Í fjárlagafrumvarpinu er því spáð að fjárlagahallinn minnki í 700 milljarða dala árið 2013 en hækki síðan smám saman í 1.000 milljarða fyrir lok áratugarins.
Gert er ráð fyrir því að fjárlagahallinn í ár verði enn meiri en spáð hafði verið, verði um 10% af vergri landsframleiðslu og hlutfallslega meiri en nokkru sinni fyrr frá síðari heimsstyrjöldinni. Á síðasta ári nam hallinn 1.400 milljörðum dala, eða 9,9% af landsframleiðslunni.
Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að útgjaldaþak verði sett á mörg verkefni í innanríkismálum í þrjú ár til að spara um 20 milljarða dala á næsta ári og 250 milljarða á áratugnum. Það nægir þó ekki til að ná fjárlagahallanum niður í 3% af vergri landsframleiðslu sem flestir hagfræðingar telja viðráðanlegt hlutfall. Gert er ráð fyrir því að hallinn minnki eftir því sem efnahagurinn réttir úr kútnum en verði samt um 4,5% að meðaltali á áratugnum. Búist er við að hallinn aukist aftur undir lok áratugarins þegar fjölmennir árgangar fara á eftirlaun.