Norskir hermenn fluttu barn frá Marokkó

Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs.
Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs. Reuters

Norsk stjórnvöld viðurkenndu í gær, að einn norskur sendimaður og tveir norskir hermenn hefðu tekið þátt í að smygla tveimur börnum frá Marokkó á síðasta ári. Um var að ræða börn norskrar konu og marokkósks karlmanns sem höfðu skilið og áttu í forræðisdeilu.

Þau Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra, og Grete Faremo, varnarmálaráðherra, héldu í gær blaðamannafund þar sem þau viðurkenndu að tveir hermenn í norska sjóhernum hefðu farið á seglbáti frá Spáni til Marokkó til að sækja börnin, sem þá höfðu leitað skjóls í sendiherrabústað Noregs í Rabat.

Ráðherrarnir fullyrtu hins vegar að norsk stjórnvöld hefðu ekki komið að þessu máli með neinum hætti. Umræddir hermenn hefðu verið í leyfi þegar þetta gerðist.  

Faðir barnanna, Khalid Skah, er kunnur langhlaupari og vann m.a. 10 kílómetra hlaup á ólympíuleikunum í Barcelona árið 1992. Hann hefur sakað norska sendiráðið í Marokkó um að hafa numið börnin á brott og skipulagt flótta þeirra frá landinu ásamt móður þeirra, Anne Cecilie Hopstock.

Norsk stjórnvöld viðurkenna að þau hafi skotið skjólshúsi yfir börnin tvö, Selmu og Tarik, í sendiherrabústaðnum í Rabat. Hins vegar hafi verið talið að öryggi barnanna væri ógnað. 

„Þau komu af fúsum og frjálsum vilja og fóru af fúsum og frjálsum vilja," sagði Gahr Støre í gær.

Eftir að börnin höfðu dvalið í þrjá sólarhringa í sendiherrabústaðnum ók sendimaður þeim á fund með fyrrum lögreglumanni, sem hafði tekið að sér að aðstoða móðurina. Gahr Støre sagði, að starfsfólk sendiráðsins hefði tekið þá umdeilanlegu ákvörðun að láta sendimann aka börnunum á fundinn, um 10 mínútna akstur. Sú ákvörðun hefði verið tekin vegna meintra hótana föður barnanna. 

Hermennirnir tveir, sem fluttu börnin með seglbáti frá Marokkó til Spánar, gerðu það að undirlagi lögreglumannsins fyrrverandi, sagði Gahr Støre, án vitneskju yfirmanna hermannanna og norskra stjórnvalda. 

Grete Faremo sagði að það væri óviðunandi að norskir hermenn tækju þátt í aðgerðum sem þessum, jafnvel þótt hermennirnir hefðu verið í leyfi þegar þetta gerðist.  

Mál þetta hefur valdið erfiðleikum í samskiptum Noregs og Marokkó og hafa stjórnvöld í síðarnefnda landinu hafið rannsókn á gerðum norska sendiráðsins.

Anne Cecilie Hopstock og Khalid Skah bjuggu um tíma í Noregi en fluttu til Marokkó árið 2006. Þau skildu ári síðar og Hopstock fór til Noregs og krafðist forræðis yfir börnunum, sem urðu eftir í Marokkó. Norskir dómstólar féllust á kröfu hennar en dómstólar í Marokkó veittu Skah forræði og hann neitaði að skila börnunum. Hopstock lagði í kjölfarið fram kæru á hendur Skah fyrir mannrán, ofbeldi og hótanir. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert