Vetrarríki hefur valdið vandræðum víða á Norðurlöndum. Verst er veðrið í sunnanverðum Noregi, Suður-Svíþjóð og í Danmörku. Fólki er ráðlagt að vera ekki á ferli utandyra að nauðsynjalausu og helst að láta það vera að aka meðan veðrið og færðin eru sem verst.
Dönum er ráðlagt að hreyfa ekki bíla sína, einkum í Austur-Jótlandi, víðast hvar á Sjálandi og á Fjóni. Dönsku járnbrautirnar hafa fækkað lestum sem ganga en flestar hafa haldið áætlun. Búist er við umferðartöfum í Kaupmannahöfn og nágrenni hennar.
Í Noregi loka kyrrstæðir flutningabílar og rútur víða vegum og tefja þannig aðra umferð. Norskir vefmiðlar greina m.a. frá því að útlendir flutningabílstjórar kunni ekki að aka í ófærðinni auk þess sem bílarnir séu vanbúnir til aksturs í snjó og hálku.
Lögregla og björgunarfélög hafi þurft að koma þeim til hjálpar og aðstoða þá við að kaupa snjókeðjur. Það þarf að kenna bílstjórunum að setja keðjurnar undir og dæmi um að þeir hafi snúið göddunum að hjólbarðanum í stað þess að snúa þeim út.
Í Suður-Svíþjóð blæs nú hressilega með töluverðri snjókomu og er varað við umferðaröngþveiti vegna ófærðar. Talið er að veðrið verði verst undir kvöldið og svo taki að lægja um miðnættið. Send hefur verið út viðvörun vegna veðursins. Ökuhraði hefur verið lækkaður á brúnni yfir Eyrarsund, milli Danmerkur og Svíþjóðar. Ökutækjum sem taka á sig vind er ekki ráðlagt að fara yfir brúna en á henni er nú 18 m/s vindur.