16 ára stúlka grafin lifandi

Ættingjar tyrkneskrar sextán ára gamallar stúlku grófu hana lifandi þar sem hún þótti hafa kallað smán yfir fjölskylduna með því að eiga vingott við pilta. Anatolia fréttastofan sagði frá þessu í gær.   

Lögregla fékk vísbendingar um hvað hefði gerst og fann lík stúlkunnar í tveggja metra djúpri gröf í hænsnagirðingu utan við heimili hennar í bænum Kahta í Adiyamanhéraði. Þá hafði stúlkunnar, sem hét Medine Memi, verið saknað í 40 daga.  

Líkið var í sitjandi stellingu. Krufning leiddi í ljós mold í lungum hennar og maga sem benti til þess að stúlkan hafi verið grafin lifandi.   

Foreldrar og afi stúlkunnar voru handtekin og úrskurðuð í gæsluvarðhald. Faðirinn er sagður hafa borið við yfirheyrslur, að fjölskyldan var ósátt við að stúlkan átti karlkyns vini.   

Svokölluð heiðursmorð eru algengust í suðvesturhluta Tyrklands þar sem Kúrdar eru fjölmennastir. Þá er skotið á fundum svonefndra fjölskylduráða sem tilnefna einn úr sínum röðum til að myrða kvenkyns ættingja, sem þykir hafa varðað rýrð á heiður fjölskyldunnar, oftast með því að eiga ástarævintýri utan hjónabands. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert