Ákærð fyrir að ræna börnum

Tíu bandarískir trúboðar eiga yfir höfði sér allt að níu ára fangelsisdóm eftir að þeir voru ákærðir á Haítí fyrir að hafa reynt að ræna 33 börnum eftir jarðskjálftann mannskæða í landinu.

Dómsmálaráðherra Haítí, Paul Denis, sagði að leiða ætti trúboðana fyrir rétt þar í landi, ekki í Bandaríkjunum eins og lagt hafði verið til. Hópurinn var ákærður formlega í gær fyrir rán á börnum og glæpasamsæri.

Trúboðarnir tíu, fimm konur og fimm karlar, voru stöðvaðir við landamærin á föstudaginn var og sögðust ætla að flytja börnin á munaðarleysingjahæli í Dóminíska lýðveldinu. Síðar kom í ljós að mörg barnanna eiga enn foreldra á lífi.

22 barnanna eru frá þorpi skammt frá höfuðborginni Port-au-Prince og foreldrar þeirra eru sagðir hafa látið börnin af hendi sjálfviljugir. Hermt er að haítískur starfsmaður munaðarleysingjahælis hafi tekið við börnunum og lofað foreldrunum því að trúboðarnir myndu koma börnunum til mennta í Dóminíska lýðveldinu. Fréttamaður breska ríkisútvarpsins á Haítí hafði eftir nokkrum foreldranna að erfitt yrði fyrir þá að sjá fyrir börnunum vegna örbirgðar eftir hamfarirnar.

Tveir trúboðanna tíu sem hafa verið ákærðir á Haítí fyrir …
Tveir trúboðanna tíu sem hafa verið ákærðir á Haítí fyrir að ræna börnum. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert