Jamie Dimon, forstjóri og stjórnarformaður fjárfestingabankans JPMorgan Chase, fékk alls 16 milljónir dollara í bónusgreiðslur árið 2009. Talsmaður bankans segir þó að bónusarnir hafi allir verið greiddir í hlutabréfum, Dimon hafi ekkert reiðufé fengið.
Fréttirnar af háum bónusgreiðslum Dimon hafa virkað eins og olía á eld en bandarískur almenningur er yfir sig hneykslaður vegna gríðarhárra bónusgreiðslna til bankamanna og vilja sumir
kenna bónusunum um þá miklu áhættusókn sem leiddi til fjármálakreppunnar.
JPMorgan Chase undir stjórn Dimon hagnaðist hinsvegar verulega á árinu 2009. Í síðasta mánuði tilkynnti bankinn að tekjur fjórða ársfjórðungs hefðu fjórfaldast miðað við fjórðunginn á undan og yfir árið í heild hefðu tekjurnar tvöfaldast.
Árið 2007 fékk Dimon alls 28 milljón dollara í bónusgreiðslur. Árið 2008 neitaði hann hinsvegar að þiggja aðra þóknun en grunnlaun sín. Almennt voru bónusgreiðslur um 41% lægri í ár en árið 2007.