Forstjóri Toyota, Akio Toyoda, baðst í dag afsökunar á því að fyrirtækið hafi þurft að innkalla bíla um allan heim með þeim afleiðingum að orðspor þessa stærsta bílaframleiðanda heims hefur beðið verulegan hnekki.
Toyoda baðst afsökunar á þeim óþægindum sem uppákoman hefur valdið viðskiptavinum, en bæði neytendur og almannatengslasérfræðingar hafa gagnrýnt mjög viðbrögð fyrirtækisins. Alls hefur Toyota innkallað um 8 milljón bíla um allan heim vegna vandræða með bensíngjöfina sem talin er hafa leitt til nokkurra dauðsfalla í bílslysum í Bandaríkjunum.
Í kjölfarið hefur fyrirtækið tekið mikinn skell og tapað um 30 milljörðum dollara, eða fimmtungi markaðsvirðis síns. Með blaðamannafundinum í Nagoya í Japan í dag vildu eigendur fyrirtækisins gera tilraun til að sannfæra viðskiptavini þess um að Toyota bílar séu ennþá örugg farartæki. Toyoda hét því að fyrirtækið muni sýna fulla samvinnu við rannsókn yfirvalda á göllunum sem upp hafa komið.