Á sama tíma og íbúar norðvesturhluta Evrópu skjálfa úr kulda hefur ekki verið hlýrra á Grænlandi í hálfa öld. Að sögn dönsku veðurstofunnar var meðalhiti í Prins Kristjánssundi á suðurodda Grænlands 0,3 gráður í janúar en meðalhitinn á tímabilinu frá 1961 til 1990 var 4,1 gráðu frost á þessum slóðum.
Hlýtt hefur verið á Grænlandi í vetur, miðað við árstíma en á sama tíma hefur verið vetrarríki í Danmörku og öðrum löndum á meginlandi Evrópu, að því er kemur fram á fréttavef Berlingske Tidende.