Lettar selja Rússum heilan draugabæ

Ekki er ljóst hvað rússneska fyrirtækið ætlar sér að gera …
Ekki er ljóst hvað rússneska fyrirtækið ætlar sér að gera við bæinn. AP

Lettar hafa nú selt heilan bæ, sem eitt sinn var notaður sem sovésk herstöð. Draugabærinn, sem gekk áður undir nafninu Skrunda-1, var boðin upp og seldur rússnesku fyrirtæki fyrir 3 milljónir dollara, tæplega tíföldu uppsettu verði.

Með í kaupunum fylgja 45 hektara landsvæði, 10 íbúðablokkir, tveir næturklúbbar, verslunarmiðstöð, leikskóli, braggar og sána.

Bærinn var yfirgefinn eftir að rússneski herinn hélt á brott frá Lettlandi árið 1994 eftir fall Sovétríkjanna. Hann liggur um 150 kílómetra vestur af höfuðborginni Riga. Talsmaður einkavæðingarstofnunar Lettlands, sem annaðist uppboðið, segir það jákvætt að eignir sem staðið hafi ónotaðar um árabil og ekki lagt neitt til efnahagsins hafi verið seldar. Ekki er vitað hvað rússneska fyrirtækið, Aleksejevskoje-Serviss, ætlar sér með kaupunum.

Skrunda-1 var lokað svæði og ekki merkt inn á sovésk kort þar sem herstöðin hýsti m.a. eldflaugaskotpall. Pallurinn var rifinn undir lok síðustu aldar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert