Vill banna erlend tungumál í grunnskólum

Danski þjóðarflokkurinn hyggst leggja fram frumvarp til laga um að bannað verði að tala önnur tungumál en dönsku í tímum og frímínútum í grunnskólum í Danmörku.

Fréttavefur danska dagblaðsins Politiken hefur þetta eftir talsmanni Danska þjóðarflokksins í menntamálum, Marlene Harpsøe. „Þetta er mikilvægt til að hindra einelti. Við höfum séð dæmi um skóla þar sem nemendur hafa notað erlend tungumál til að leggja aðra í einelti og baknaga þá. Við viljum taka þátt í því að tryggja að ekki sé töluð arabíska eða urdu eða önnur tungumál en danska. Í dönskum grunnskólum er töluð danska,“ segir Marlene Harpsøe.

Flokkurinn leggur til að nemendur, sem brjóta bannið, verði látnir sitja eftir eða ávíttir á fundi með foreldrum.

Menntamálaráðherra Danmerkur, Bertel Haarder, kveðst ekki styðja slíkt bann og segir að stjórnendur skólanna eigi að ákveða sjálfir hvaða tungumál séu töluð í skólunum eða hvað nemendur megi segja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert