Ný hryðjuverkalög sem sett hafa verið í Eþíópíu svipta blaðamenn þeim rétti að halda heimildamönnum sínum leyndum, að því er fram kemur í yfirlýsingu frá samskiptaráðuneyti landsins.
„Hryðjuverkalögin ýta til hliðar þeim rétti blaðamanna að leyna upplýsingum um heimildamenn sína þegar þeir flytja fréttir af hryðjuverkum," hefur AFP eftir ráðherranum Shimeles Kemal. Þetta sé gert með hliðsjón af þeim miklu hörmungum sem hryðjuverk valdi.
Aðeins eitt Afríkuland skákar Eþíópíu þegar kemur að því varpa blaðamönnum í fangelsi. Ekki er lengra en nokkrir dagar síðan dálkahöfundur var fangelsaður fyrir að gagnrýna forsætisráðherra landsins. Mannréttindasamtökin Human Rights Watch lýstu áhyggjum sínum af því, áður en frumvarp hryðjuverkalaganna var samþykkt í fyrra, að hluta þess væri beint gegn fjölmiðlum landsins.
„Samkvæmt lögunum gæti blaðamaður sem tekur viðtal við stjórnarandstöðuþingmann eða stuðningsmann vopnaðra samtaka verið sagður „hvetja til hryðjuverka" með því einu að lýsa viðhorfum viðmælandans," segja samtökin.
Ríkisstjórn Eþíópíu skilgreinir tilraunum til uppreisna sem staðið hafa yfir árum saman í héröðunum Oromo og Ogaden sem hryðjuverkastarfsemi.