Washington lömuð vegna snjóa

Snjómokstur í Washington.
Snjómokstur í Washington. JONATHAN ERNST

Blindbylur hefur gengið yfir austurströnd Bandaríkjanna í dag og í gær og valdið miklum truflunum, ekki síst í höfuðborginni Washington þar sem búist er við að milljónir manna muni halda sig innivið á næstu dögum.

Veðrið teygir sig allt frá Indiana til Pennsylvaníu og inn í hluta New York ríkis og Norður-Karólínu. Í þessum ríkjum er ekkert ferðaveður og hefur flugvöllum verið lokað og víða verið lýst yfir neyðarástandi.  Að sögn veðurfræðinga verða Washington og nágrenni hennar verst úti í storminum og er fólki ráðlegt að fara ekki út úr húsi þar sem það geti verið lífshættulegt.  Fólk er vinsamlegast beðið um að hjálpa björgunarsveitum með því einfaldlega að halda sig frá vegakerfinu.

Allt að 5 daga innilokun

Spáð hefur verið allt að 76 cm jafnföllnum snjó í Washington yfir helgina. Þar með verður 88 ára gamalt met slegið því ekki hefur snjóað jafn mikið á svæðinu síðan árið 1922 í hinum svonefnda „Mikla Knickerbocker stormi" sem kallast svo vegna þess að Knickerbocker leikhúsið í Washington hrundi undan snjóþyngslum svo nærri 100 manns létust.

Vetur eru sjaldan snjóþungir í Washington og er hluti af þeirri hættu sem stafar af veðrinu sagður stafa af því að íbúar í borginni, sem eru um 8 milljónir talsins, hafi hvorki þekkingu og reynslu né útbúnað til að bregðast við svo miklum snjó, ólíkt íbúum norðlægari ríkja Bandaríkjanna.

Strætisvagnaferðir hafa legið niðri í höfuðborginni  síðan í gær og eru flestar götur sagðar ófærar. Þá hefur yfir 40 lestarstöðvum verið lokað, sem þýðir að flestir íbúar úthverfa Washington komast hvorki lönd né strönd. Margir ættu þó að geta setið storminn af sér því matvörur voru hamstraðar í verslunum í gær.

Í fjölmiðlum var fólk varað við því að það þyrfti að búa sig undir allt að 5 daga innilokun. Washington hefur því verið eins og draugaborg síðan síðdegis í gær.

Vegfarendur ýta bíl í miðborg Washington.
Vegfarendur ýta bíl í miðborg Washington. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert