G7 ríkin afskrifa skuldir Haítí

Frá höfuðborg Haítí, Port-au-Prince, sem varð illa úti í skjálftanum.
Frá höfuðborg Haítí, Port-au-Prince, sem varð illa úti í skjálftanum. JORGE SILVA

Leiðtogar helstu iðnríkja heims hafa heitið því að afskrifa skuldir Haítí vegna hinnar miklu eyðileggingar sem þar hefur orðið. G7 ríkin funduðu um helgina í Iqaluit í Norður-Kanada og tilkynnti fjármálaráðherra Kanada, Jim Flaherty, í gær að þjóðirnar hefðu tekið þessa ákvörðun og hvatti jafnframt aðra alþjóðlega lánadrottna til að gera slíkt hið sama.

G7 þjóðirnar, Kanada, Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Þýskaland, Ítalía og Japan, hafa verið undir miklum þrýstingi um að hjálpa Haítí, sem var fátækasta þjóð á vesturhveli jarðar jafnvel áður en skjálftinn reið yfir þann 12. janúar. „Það er ekki réttlætanlegt að þjóð sem grafin er í rústum sé einnig að kikna undan skuldum," segir Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands.

Nú þegar hafa skuldir sem nema um 1,2 milljarði bandaríkjadala verið afskrifaðar. Ekki er vitað nákvæmlega hversu mikið Haíti skuldar G7 þjóðunum, en upphæðin er talin vera heldur lág. Aðrir stærstu lánadrottnar Haítí eru Taívan og Venesúela.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert