Mikill snjómokstur framundan

Íbúar á austurströnd Bandaríkjanna eiga í vændum mikinn snjómokstur eftir að snjó kyngdi þar niður á föstudag og laugardag. Snjókoman hefur valdið usla og voru um 350 þúsund manns án rafmangs í morgun í Virginíu og Maryland. Þá eru tvö banaslys rakin til snjókomunnar. 

Bylurinn náði frá austurhluta Indiana til New Jersey og í suðurátt til Norður-Karólínu. Vindhraðinn náði 25 metrum á sekúndu og jafnfallinn snjór mældist allt að 96 sentimetrar nálægt Baltimore sem er met. Þá var jafnfallinn snjór yfir 60 sentimetrar í höfuðborginni Washington, sem einnig er talið vera met. Rafmagnsstaurar brotnuðu víða undan snjóþunganum.

Veðurfræðingar hafa hvatt fólk til að halda sig heima í dag en  þótt stytt hafi upp í nótt er áfram kalt og aðstæður á vegum eru mjög erfiðar. Búist er við að nokkrir dagar geti liðið áður en búið verður að koma rafmagni á allstaðar þar sem það fór. 

Barack Obama, Bandaríkjaforseti, varð að fara úr Hvíta húsinu í gær til að halda ræðu á fundi hjá Demókrataflokknum. Bíll í bílalest hans, lenti á leiðinni í smávægilegu umferðaróhappi vegna hálkunnar. Í ræðunni talaði Obama um  „Snowmageddon".

Ríkisstjórar Virginíu, Maryland og District of Columbia lýstu yfir neyðarástandi í gær vegna snjókomunnar svo þeir gætu varið opinberu fé til aðgerða og kallað út þjóðvarðliða.

Banaslys varð í Virginíu á föstudagskvöld þegar ekið var á tvo feðga sem ætluðu að koma vegfaranda til aðstoðar.

Öllum flugum frá Reagan flugvellinum í Washington var aflýst í gær og flestum flugum frá Dulles alþjóðaflugvellinum í Virginíu. Þá urðu miklar truflanir á flugi frá flugvellinum í Baltimore.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert