Saksóknarar í Tyrklandi krefjast þess að faðir og afi 16 ára gamallar stúlku, sem var grafin lifandi fyrir að eiga vingott við drengi, verði dæmdir í ævilangt fangelsi.
Faðir stúlkunnar, Ayhan Memi, sem er fertugur, og Fethi Memi, 65 ára, voru handteknir eftir að lík Medine Memi fannst grafið í hænsnagirðingu utan við hús fjölskyldunnar í bænum Kahta í Adiyamanhéraði þar sem Kúrdar eru í meirihluta. Stúlkan hafði þá ekki sést í 40 daga.
Krufning leiddi í ljós mold í lungum og maga stúlkunnar sem benti til þess að hún hafi verið grafin lifandi.
Faðir og afi stúlkunnar voru að handteknir í byrjun desember en þeir hafa neitað að tjá sig við lögreglu og saksóknara. AFP fréttastofan hefur eftir heimildarmönnum, að feðgarnir verði líklega ákærðir fyrir morð að yfirlögðu ráði en samkvæmt tyrkneskum lögum eru viðurlög við slíku ævilangt fangelsi.
Fréttastofan hefur eftir Muhammed Cevik, sem á héraðsfréttablaðið Kahta, að stúlkan hafi alderi farið í skóla og hugsanlega varla kunnað að lesa og skrifa.
Svokölluð heiðursmorð eru enn nokkuð algeng í suðvesturhluta Tyrklands þar sem Kúrdar eru
fjölmennastir. Þá er skotið á fundum svonefndra fjölskylduráða sem
tilnefna einn úr sínum röðum til að myrða kvenkyns ættingja, sem þykir
hafa varðað rýrð á heiður fjölskyldunnar, oftast með því að eiga
ástarævintýri utan hjónabands.