Kanadamönnum og forystumönnum í Nunavut, stærsta sjálfsstjórnarsvæði Kanada, tókst ekki að auka skilning fjármálaráðherra G7 landanna á ágæti selveiða. Ráðherrarnir fúlsuðu við höfðinglegu boði Jim Flaherty fjármálaráðherra Kanada um selkjötsveislu þegar G7 fundinum lauk á laugardaginn var.
Flaherty bauð forystumönnum G7 ríkjanna til hátðíðarkvöldverðar í tilefni af lokum leiðtogafundar G7 í Iqaluit í Nunavutl. Meðal annars átti að bjóða þar upp á selkjöt. Ráðherrarnir sex, félagar Flaherty á fundinum, hunsuðu boðið, að sögn grænlenska útvarpsins KNR.
Hermt er að selkjötið hafi átt að vera á matseðlinum til að mótmæla innflutningsbanni Evrópusambandsins á selaafurðum. Iqaluit var einnig valið sem fundarstaður í því skyni að opna augu fjármálaráðherranna fyrir mikilvægi selveiða fyrir íbúa heimskautasvæðanna.
Fjármálaráðherrarnir sex og bankamenn frá Þýskalandi, Frakklandi, Ítalíu og Englandi létu vita að þeir myndu hunsa boðið af þeirri ástæðu að þar ætti að bjóða upp á selkjöt. Bandaríski og japanski ráðherrann mættu einfaldlega ekki.
Þeir einu sem mættu til veislunnar voru kanadíski fjármálaráðherrann og seðlabankastjóri kanadíska seðlabankans. Það átti ekki einungis að bjóða upp á selkjöt heldur átti að bjóða ráðherrunum til sætis á stólum sem klæddir eru selskinni. Þá átti að gefa ráðherrunum vesti og vettlinga úr selskinni. Einnig stóð til að þjónustufólk yrði með hárbönd úr selskinni.
Á blaðamannafundi, sem haldinn áður en veislan átti að hefjast, kröfðu margir blaðamenn fjármálaráðherrana sex svara um afstöðu þeirra til selveiða. Allir sem einn neituðu þeir að tjá sig um málið. Kanadíska útvarpið CBC sagði að kanadíski fjármálaráðherrann hafi leyst félaga sína úr prísundinni með því að minna á að frumbyggjar séu undanþegnir innflutningsbanni ESB á selaafurðum.