Hunsuðu boð um selkjötsveislu

Fjármálaráðherrar G7 ríkjanna í Nunavut.
Fjármálaráðherrar G7 ríkjanna í Nunavut. Reuters

Kan­ada­mönn­um og for­ystu­mönn­um í Nunavut, stærsta sjálfs­stjórn­ar­svæði Kan­ada, tókst ekki að auka skiln­ing fjár­málaráðherra G7 land­anna á ágæti sel­veiða. Ráðherr­arn­ir fúlsuðu við höfðing­legu boði Jim Flaherty fjár­málaráðherra Kan­ada um sel­kjöts­veislu þegar G7 fund­in­um lauk á laug­ar­dag­inn var.

Flaherty bauð for­ystu­mönn­um G7 ríkj­anna til hátðíðar­kvöld­verðar í til­efni af lok­um leiðtoga­fund­ar G7 í Iqaluit í Nunavutl. Meðal ann­ars átti að bjóða þar upp á sel­kjöt.  Ráðherr­arn­ir sex, fé­lag­ar Flaherty á fund­in­um, hunsuðu boðið, að sögn græn­lenska út­varps­ins KNR.

Hermt er að sel­kjötið hafi átt að vera á mat­seðlin­um til að mót­mæla inn­flutn­ings­banni Evr­ópu­sam­bands­ins á sela­af­urðum. Iqaluit var einnig valið sem fund­arstaður í því skyni að opna augu fjár­málaráðherr­anna fyr­ir mik­il­vægi sel­veiða fyr­ir íbúa heim­skauta­svæðanna.

Fjár­málaráðherr­arn­ir sex og banka­menn frá Þýskalandi, Frakklandi, Ítal­íu og Englandi létu vita að þeir myndu hunsa boðið af þeirri ástæðu að þar ætti að bjóða upp á sel­kjöt. Banda­ríski og jap­anski ráðherr­ann mættu ein­fald­lega ekki.

Þeir einu sem mættu til veisl­unn­ar voru kanadíski fjár­málaráðherr­ann og seðlabanka­stjóri kanadíska seðlabank­ans. Það átti ekki ein­ung­is að bjóða upp á sel­kjöt held­ur átti að bjóða ráðherr­un­um til sæt­is á stól­um sem klædd­ir eru sel­skinni. Þá átti að gefa ráðherr­un­um vesti og vett­linga úr sel­skinni. Einnig stóð til að þjón­ustu­fólk yrði með hár­bönd úr sel­skinni. 

Á blaðamanna­fundi, sem hald­inn áður en veisl­an átti að hefjast, kröfðu marg­ir blaðamenn fjár­málaráðherr­ana sex svara um af­stöðu þeirra til sel­veiða. All­ir sem einn neituðu þeir að tjá sig um málið.  Kanadíska út­varpið CBC sagði að kanadíski fjár­málaráðherr­ann hafi leyst fé­laga sína úr prísund­inni með því að minna á að frum­byggj­ar séu und­anþegn­ir inn­flutn­ings­banni ESB á sela­af­urðum.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert