Stjórnmálastjarnan Sarah Palin var enn einu sinni á milli tannanna á fólki í dag þegar gárungarnir drógu dár að henni fyrir að reiða sig á minnispunkta, sem krotaðir voru í lófa hennar, fyrir mikilvæga ræðu sem hún hélt á fundi grasrótarsamtaka repúblikana um helgina.
Myndir náðust af höndum Palin í ræðustól þar sem sást að hún hafði krotað orðin „orkumál", „skattar," og „bandarískur baráttuandi" í lófa sína áður en opnað var fyrir spurningar eftir ræðu hennar á laugardag. Þá virtist hún hafa skrifað „niðurskurður í fjárlögum" í lófann en síðan krotað yfir orðið „fjárlög".
Í upptökum af fundinum sést til Palin þar sem hún gjóir augunum á glósurnar þegar hún var spurð að því hvaða þrjú mál væru í forgangi ef íhaldsmenn hefðu meirihluta á þingi.