Hrósa framkvæmd forsetakosninga í Úkraínu

Eftirlitsmenn Öryggis- og samvinnustofunar Evrópu (ÖSE), sem fylgdust með forsetakosningunum í Úkraínu um helgina, segja að kosningarnar hafi farið vel og heiðarlega fram. Ljóst er að Viktor Janúkóvítsj bar þar sigurorð af Julíu Timosjenkó þótt ekki munaði miklu.

Joao Soares, yfirmaður kosningaeftirlits ÖSE í Úkraínu, sagði að kosningarnar í gær hefðu farið fram í samræmi við lýðræðislegar reglur.

Þegar búið var að telja 97,6% atkvæða undir hádegið hafði Janúkóvítsj fengið 48,49% en Timosjenkó 45,92%. Afgangurinn greiddi hvorugum frambjóðandanum atkvæði. Timosjenkó hefur hins vegar neitað að játa sig sigraða og hefur fullyrt, að brögð séu í tafli og gefið til kynna að hún muni bera úrslitin undir dómstóla. Hún mun senda frá sér yfirlýsingu síðar í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert