Svarta umferðarmiðstöðin á Ráðhústorginu í Kaupmannahöfn verður rifin á mánudaginn kemur. HT-viðkomustöðin hefur verið nefnd „ljótasta bygging Danmerkur“ og verið mörgum þyrnir í augum.
Vefsíða Jyllands Posten segir að strætisvagnamiðstöðin standi í vegi nýrrar viðkomustöðvar neðanjarðarjárnbrautarinnar (metro) á Ráðhústorgin. Neðanjarðarstöðin verður beint undir núverandi strætisvagnastöð.
Húsið umdeilda var vígt 15. janúar 1995 og stóð því í 15 ár. Allt frá upphafi lýstu margir óánægju sinni með húsið sem þótti stinga mjög í stúf við aðrar byggingar við Ráðhústorgið.
Danski stjórnmálamaðurinn Ritt Bjerregaard lofaði því árið 2005 að yrði hún kjörin yfirborgarstjóri í Kaupmannahöfn ætlaði hún að láta rífa svörtu strætisvagnamiðstöðina á Ráðhústorginu og skipuleggja Ráðhústorgið og torgið framan við aðaljárnbrautarstöðina að nýju. Ritt náði kjöri en byggingin stóð keik út kjörtímabil borgarstjórans, sem rann út seint á síðasta ári.