El niño veldur usla í Ameríku

Íbúi Washington fetar sig á milli mannhæðarhárra snjóskafla.
Íbúi Washington fetar sig á milli mannhæðarhárra snjóskafla. JIM BOURG

Stórhríð í Bandaríkjunum, hitabylgja í Brasilíu, flóð í Mexíkó og þurrkar í Ekvador. Alla þessa öfga í veðurfari má að sögn sérfræðinga rekja til veðurfræðifyrirbærisins El niño sem kemur fram á nokkurra ára fresti.

El nino er ástæða þess að íbúar New York og Washinton hafa þurft að grafa sig út úr snjósköflum síðustu daga svo skólum, stofnunum og meira að segja höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna er lokað. El niño ber líka ábyrgð á því að íbúar Rio de Janeiro hafa legið í svitabaði í mestu hitabylgju sem gengið hefur yfir landið í 50 ár svo í hæstu hæðum er hitinn meiri en í sjálfri Sahara eyðimörkinni. Í dag mældist hitinn í borginni 46,3°C og eins og geta má nærri eru íbúar hennar að mestu óstarfhæfir.

Í nágrannahéraði Rio, Sao Paulo, hefur rignt stöðugt í næstum 2 mánuði og yfir 70 manns hafa látist í flóðum. Sömu sögu er að segja í Mexíkó þar sem 42 hafa dáið vegna flóða. Þá flæddi upp úr holræsakerfinu í Mexíkóborg svo grípa þurfti til neyðarráðstafana.  Í Perú hafa flóð valdið því að loka þurfti hinum  sögufrægu rústum Machu Picchu og 2.200 ferðamenn sem voru strandaglópar voru fluttir burt. Nær miðbaug glíma menn hinsvegar við andstæðuna því þar ríkir vatnsskortur. Í Ekvador ríkir nú versti þurrkur sem gengið hefur yfir landið í 40 ár.

El niño lætur því rækilega finna fyrir sér í Ameríku um þessar mundir.

Ríkisstjóri Rio de Janeiro fylgist með hjálparsveitum leita að fórnarlömbum …
Ríkisstjóri Rio de Janeiro fylgist með hjálparsveitum leita að fórnarlömbum skriðu sem varð vegna flóða í landinu. HO
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert