Mikið hneyksli er í uppsiglingu í Árósaháskóla í Danmörku. Að sögn staðarblaðsins Århus Stiftstidende virðist fræðimaður, sem vann að rannsóknarverkefni við skólann, hafa fengið um 10 milljónir danskra króna, um 240 milljónir íslenskra króna, greiddar fyrir rannsóknir sem lítið bjó á bak við.
Maðurinn, sem hfur verið búsettur í Árósum, sagði upp stöðu sinni hjá rannsóknarstofnun heilbrigðismála hjá skólanum í mars í fyrra. Í kjölfarið vöknuðu grunsemdir um að ekki væri allt með felldu og var málið kært til lögreglu.
Maðurinn hafði unnið að rannsón þar sem reynt var að finna orsakir einhverfu. Frá árinu 2002 hafði þetta verkefni m.a. fengið yfir 80 milljóna danskra króna styrki frá bandarískum heilbrigðisyfirvöldum.
Upplýsingafulltrúi Árósaháskóla segir að í ljós hafi komið, að maðurinn starfaði einnig fyrir Emory háskóla í Bandaríkjunum á sama tíma og hann var starfsmaður danska skólans.
Århus Stiftstidende segir, að ekki hafi tekist að finna fræðimanninn og ræða við hann. Hann flutti þó ekki alls fyrir löngu fyrirlestur á ráðstefnu á Ítalíu og sagðist þá vera starfsmaður háskólans í Árósum. Heimildarmenn blaðsins segja, að maðurinn flakki nú um Bandríkin. Hann minni um margt á danska fjársvikarann Stein Bagger og reyni hvað hann getur til að afla styrkja úr hinum ýmsu sjóðum.
Árósaháskóli hefur nýlega sent bréf til ýmissa stofnana um málið þar sem rektor skólans leggur áherslu á að umræddur maður tengist háskólanum ekki lengur með neinum hætti.