Stefnubreyting í hvalveiðimálum

Rætt er um að leyfa takmarkaðar hvalveiðar gegn fækkun veiddra …
Rætt er um að leyfa takmarkaðar hvalveiðar gegn fækkun veiddra hvala. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Svo virðist sem að stefnubreyting sé að verða innan Alþjóðahvalveiðiráðsins til hvalveiða. Hún felst í því að skapa umhverfi þar sem höfð er stjórn á hvalveiðum en að um leið verði fækkað heildarfjölda veiddra hvala á hverju ári.

Japanir hyggjast leggja til minnkun hvalveiða sinna við Suðurskautslandið gegn því að fá að stunda atvinnuveiðar á hvölum á heimamiðum. AFP fréttastofan hefur þetta eftir japönskum embættismanni á sviði sjávarútvegsmála í dag.

Japönsk stjórnvöld hyggjast koma með tillögu þessa efnis á ársfundi Alþjóða hvalveiðiráðsins sem haldinn verður í Marokkó í júní næstkomandi. Tillagan verður lögð fram þrátt fyrir að svipaðri tillögu hafi verið hafnað á fundi hvalveiðiráðsins í fyrra.

Þá lögðu Japanir til að þeir myndu draga úr veiðum sínum í Suður-Kyrrahafi gegn því að fá að veiða 150 hrefnur á heimamiðum á hverju ári.  Hirotaka Akamatsu landbúnaðarráðherra Japans, sem fer með sjávarútvegsmál, sagði fyrr í þessum mánuði að hann vildi leggja þessa tillögu fram sjálfur á fundi Alþjóðahvalveiðiráðsins.

Nýsjálenskur fréttavefur greindi nýlega frá því að Nýsjálendingar kunni að styðja tillögu um takmarkaðar hvalveiðar. Þar segir m.a. að á fundi tólf lykilþjóða í Alþjóðahvalveiðiráðinu í Honolulu nýverið hafi verið mótuð tillaga um fyrirkomulag svonefndra vísindaveiða.

Japanski landbúnaðarráðherrann mun hafa staðfest þar að japönsk stjórnvöld séu að undirbúa nýja tillögu um fyrirkomulag hvalveiða. Fyrrnefndur fréttavefur sagði að sumar þjóðir, sem hafa verið andvígar hvalveiðum, þ.á.m. Bandaríkin og e.t.v. Nýja Sjáland, muni styðja nýju tillöguna í þágu framtíðar Alþjóðahvalveiðiráðsins. 

Hermt er að Ástralir hafi reynt undanfarin þrjú ár að mæla fyrir endurskoðun á afstöðu Alþjóðahvalveiðiráðsins sem byggist á hvalavernd. Japanir hafi neitað að láta af eða draga úr hvalveiðum sínum við Suðurskautslandið.

Í síðustu umferð viðræðna mun hafa verið fallist á áætlun um að gera þessar veiðar löglegar næsta áratuginn í skýrslu til hvalveiðiráðsins. Í staðinn var lagt til að allir hvalveiðikvótar vegna atvinnuveiða, þar á meðal kvótar Íslendinga og Norðmanna, yrðu minnkaðir. 

Japanir hafa veitt nokkur hundruð hvali árlega á miðum við Suðurskautslandið.  Sea Shepherd-samtökin hafa reynt að trufla veiðarnar með ýmsu móti og hafa átök þeirra við hvalveiðimenn oft leiðst út í mikla hörku.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert