Tyrkneskur viðskiptajöfur í 11 ára fangelsi

Auðjöfurinn Mehmet Emin Karamehmet er fallinn úr háum söðli.
Auðjöfurinn Mehmet Emin Karamehmet er fallinn úr háum söðli.

Einn ríkasti maður Tyrklands, viðskiptajöfurinn Mehmet Emin Karamehmet, var í dag dæmdur í 11 ára og 8 mánaða fangelsi fyrir að draga að sér fé úr banka sem áður var í hans eigu.

Karamehmet er nú stjórnarformaður í stærsta farsímafyrirtæki Tyrklands, Turkcell. Auk fangelsisdómsins var hann dæmdur til að greiða 472 milljóna líra (312 milljónir dollara) í sekt fyrir að misnota lán frá bankanum Pamukbank.

Karamehmet er nú í gæsluvarðhaldi en hefur enn tækifæri til að áfrýja dómnum. Hann var þó ekki sá eini sem hlaut dóm því á sama tíma voru tveir stjórnendur Pamukbank bankans dæmdir til tæplega 11 og 10 ára fangelsisvistar fyrir fjárdrátt.

Pamukbank var áður í eigu Karamehmet þar til ríkið tók hann yfir í júní 2002 vegna óreiðu í fjármálum. Í kjölfarið neyddist viðskiptajöfurinn til að selja annan banka, Yapi Kredi, úr sinni eigu.

Samkvæmd lista Forbes var Karamehmet annar ríkasti maðurinn í Tyrklandi árið 2009.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert