Við heiminum blasir olíuskortur innan næstu fimm ára. Þetta segir í skýrslu vinnuhóps um orkumál sem viðskiptajöfurinn Richard Branson leiðir. Í skýrslunni eru yfirvöld í Bretlandi hvött til þess að bregðast sem fyrst við þeim vandamálum sem yfirvofandi olíuskortur muni valda.
Í skýrslunni segir að olíuframeiðsla muni hugsanlega ná hámarki sínu fyrir árið 2015. Jafnframt að „olíuskortur, stopular olíulindir og óstöðugt verðlag muni koma ójafnvægi á efnahagslega, pólitíska og félagslega starfsemi, jafnvel fyrir árið 2015."
Eftir að olíuframleiðsla nær hámarki sínu og byrjar að dvína verða óhjákvæmilega tímamót þar sem „þeim tímum þar sem olía fæst ódýrt lýkur". Áhrifa olíuskortsins mun gæta í hækkandi verðlagi á matvörum, smávörum, samgöngum og upphitun húsa. Vinnuhópurinn varar við því að bresk yfirvöld megi ekki láta olíuskortinn koma jafn harkalega aftan að sér og kreppan gerði og hvetur þá ríkisstjórn sem taka mun við eftir kosningarnar í júní til að setja olíumál í forgang.
„Ef við gerum það ekki þá bíða okkar á næsta kjörtímabili aðstæður þar sem sveiflur í eldsneytisverði munu leiða til skorts á neysluvörum og orkuöryggi Bretlans verður hætta búin." Vinnuhópurinn mælir m.a. með því að meiri kraftur verði settur í þróun annarra orkugjafa. „Samkeppnishæfi Bretlands mun skaddast verulega ef við þróum ekki trausta, hagkvæma og áreiðanlega langtímalausn með nýjum, endurnýjanlegum orkugjöfum."