Clinton í kransæðavíkkun

Bill Clinton skoðar aðstæður á sjúkrahúsi í Port Au-Prince í …
Bill Clinton skoðar aðstæður á sjúkrahúsi í Port Au-Prince í Haítí í síðustu viku. Reuters

Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, var fluttur á sjúkrahús í New York í kvöld vegna brjóstverks og gekkst í kjölfarið undir ísetningu stoðleggs til að víkka kransæð. Clinton, sem nú er sérstakur erindreki Sameinuðu þjóðanna í málefnum Haítí, gekkst undir mikla hjartaaðgerð árið 2004.

Hillary Clinton, eiginkona hans, er sögð vera á leið frá Washington til New York til að vera hjá manni sínum. Hillary er utanríkisráðherra Bandaríkjanna og hún sat fyrr í kvöld fund með Barack Obama, Bandaríkjaforseta.  

Douglas Band, ráðgjafi Clintons, sagði að forsetanum fyrrverandi liði vel eftir aðgerðina, sem framkvæmd var á Columbía Prestbyteran sjúkrahúsinu í New York.  Sagði Band, að Clinton muni halda áfram að einbeita sér að hjálparstörfum á Haítí. 

Clinton tók nýverið að sér að annast samræmingu hjálparstarfsins á Haítí fyrir Sameinuðu þjóðirnar eftir jarðskjálftann 12. janúar. Hann hefur átt mjög annríkt undanfarið við að skipuleggja hjálparstarf þar og hefur farið tvívegis til Haítí frá því jarðskjálftinn reið þar yfir 12. janúar.  

Kransæðavíkkun getur verið árangursrík meðferð fyrir sjúklinga með kransæðaþrengsli. Um er að ræða svonefnda  endurmótun æðar innan frá til að auka blóðflæði til hjartans. Er slíður úr plasti þrætt inn í slagæðina. Í gegn um slíðrið er leiðarleggur þræddur inn í ósæðina. Enda leggsins er komið fyrir í opi kransæðarinnar. Gegnum þennan leiðaralegg er fíngerður vír þræddur í gegnum þrengslin í kransæðinni. Því næst er belgleggur þræddur yfir leiðaravírinn og belgurinn á enda leggsins, staðsettur í þrengslunum, þaninn út og víkar þannig æðina.

Við víkkunaraðgerð er nú í um 60% tilfella sett inn svokallað stoðnet, eins og gert var í aðgerðinni á Clinton,  til að halda æðinni betur opinni og þá eru  minni líkur að hún þrengist aftur.

Fram kemur á vefnum doktor.is, að aðgerðin heppnist í 90-95% tilfella.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka