Margir enn með höfuðverk

Margir sem lentu í rykmekkinum þegar World Trade Center hrundi …
Margir sem lentu í rykmekkinum þegar World Trade Center hrundi þjást nú af höfuðverkjum. Reuters

Sumir þeirra, sem önduðu að sér reyk og ryki í kjölfar þess að World Trade Center hrundi eftir hryðjuverkaárásirnar 11. september 2001, fá enn höfuðverkjaköst. Þetta kemur fram í skýrslu sem birt var í gær.

„Við vissum að það væri algengt að fólk sem bjó og starfaði í nágrenni við World Trade Center þann 11. september og strax á eftir fengi höfuðverk. Þetta er fyrsta rannsóknin sem beinist að höfuðverkjum mörgum árum eftir atburðinn,“ sagði Sara Crystal skýrsluhöfundur, en hún starfar við læknadeild New York háskóla.

Rannsóknin náði til 765 einstaklinga sem nutu þjónustu á sérstakri deild Bellevue sjúkrahússins fyrir fórnarlömb hryðjuverkaárásanna. Rannsóknin var gerð sjö árum eftir árásirnar og fólkið sem tók þátt hafði ekki þjáðst af höfuðverkjum fyrir árið 2001. 

Um 55% þátttakenda kváðust hafa lent í rykskýinu sem gaus upp þegar World Trade Center hrundi. 43% þátttakenda kváðust hafa haft höfuðverk síðustu fjórar vikurnar áður en þeir voru rannsakaðir. Fólk sem lenti í fyrsta rykmekkinum virtist heldur líklegra til að greina frá höfuðverk en þeir sem ekki höfðu lent í mekkinum.

Þeir sem þjáðust af höfuðverkjaköstum virtust einnig líklegri til að  mása eða anda með erfiðismunum við áreynslu, fá nefrennsli eða stíflaðar ennisholur en aðrir.

Skýrslan verður kynnt í heild sinni á ársþingi amerískra taugalækna sem haldið verður í Toronto í apríl. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert