Buxnalaus kærði „Street View“

Frá Helsinki
Frá Helsinki mbl.is/Baldur Arnarson.

Finnska lögreglan hefur hafið rannsókn á því hvort ný myndaþjónusta Google, „Street View“ stríði gegn lögum um persónuvernd. Lögreglan í Raahe, um 600 km norðan við Helsinki, hóf rannsóknina vegna kvörtunar manns sem sagði að mynd af sér væri á „Street View“ Google.

„Það sést maður sitja í ruggustól,“ sagði Hannu Vainionpaeae rannsóknarlögreglumaður í samtali við AFP-fréttastofuna. „Hann er í skyrtu en engum buxum.“

Vainionpaeae neitaði að tjá sig um hvort hægt væri að þekkja manninn á myndinni þar sem hann situr í garði íbúðarhúss í Raahe. Myndin er tekin að sumarlagi. 

Byrjað var að bjóða upp á „Street View“ þjónustuna í Finnlandi fyrr í vikunni. Notendur geta þar skoðað ljósmyndir sem spanna allan sjóndeildarhringinn. Þær eru teknar úr sérútbúinni bifreið.

Lögreglurannsókn þessi er sú fyrsta sinnar tegundar í Finnlandi.  Vainionpaeae segir að niðurstaða hennar muni skera úr um hvort Google hafi brotið lög um óleyfilega eftirgrennslan og hvort netrisinn hafi brotið lög um persónuvernd með því að taka myndirnar og setja þær á netið.

Google býður nú upp á „Street View“ eða götusýn á Google Maps úr mörgum heimshlutum. Þjónustan býður þó ekki enn upp á íslenskar götumyndir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert