Omar bin Laden, sonur hryðjuverkaleiðtogans Osama bin Laden, segir í viðtali við bandarísku sjónvarpsstöðina ABC, að verði faðir hans drepinn sé líklegt, að þeir sem taki við af honum við stjórnvöld hryðjuverkasamtakanna al-Qaeda, mun verri.
„Miðað við það sem ég þekkti til föður míns og þeirra, sem umgengust hann þá tel ég að hann sé sá góðhjartaðasti meðal þeirra og sumir hinna eru mun mun verri," segir Omar í viðtalinu. „Þeir vilja beita mun meira ofbeldi og skapa mun meiri vandamál."
Omar, sem hefur skrifað bók um uppvöxt sinn, segir að hann og bræður hans hafi slitið tengslin við föður sinn þegar hann vildi að þeir gerðu sjálfsmorðsárásir.
„Okkur var brugðið. Hvers vegna var faðir okkar að biðja okkur um slíkt? Þegar hann fór töluðum við saman um þetta og vorum sammála um að það myndi aldrei gerast, það væri ekki okkar eðli," sagði hann í viðtalinu.
Osama bin Laden, sem talinn er bera ábyrgð á hryðjuverkaárásinni á Bandaríkin 2001 sendi nýlega frá sér ávarp þar sem hann bar lof á Umar Farouk Abdulmutallab, Nígeríumanninn sem nýlega reyndi að sprengja upp bandaríska farþegaflugvél.
Omar bin Laden gagnrýndi í viðtalinu þennan boðskap föður síns. „Það er ekki hægt að sætta sig við árásir á friðsamt fólk. Sé maður ósáttur við ríkisstjórnir eða heri þá á að berjast við þá sem þar sitja... Faðir minn ætti að koma því á framfæri við þetta fólk, að það eigi ekki að ráðast á óbreytta borgara."
Þegar Omar er spurður hvort föður hans hafi líkað eitthvað í Bandaríkjunum svaraði hann: Vopnin þeirra en ekkert annað.