Stöðnun í Evrópu

Svo virðist sem Evrópu gangi hægt að rétta úr kútnum …
Svo virðist sem Evrópu gangi hægt að rétta úr kútnum eftir efnahagssamdráttinn. Reuters

Viðreisn efnahagslífs Evrópu virðist hafa stöðvast, samkvæmt nýjum hagtölum sem birtar voru í dag. Þar vegur þungt að enginn vöxtur var í þýska hagkerfinu á fjórða ársfjórðungi 2009 og að aftur gætir samdráttar á Ítalíu.

Hagvöxtur hjá evruþjóðunum sextán var einungis 0,1% á fjórða ársfjórðungi 2009 en var 0,4% á þeim þriðja, að sögn Eurostat. Verg þjóðaframleiðsla féll um 4% í fyrra samkvæmt sömu heimild.

Sé litið til einstakra þjóða varð 0,3% hagvöxtur í Hollandi og 0,4% í Austurríki en 0,6% í Frakklandi á 4. ársfjórðungi 2009. Hagvöxtur í Frakklandi var 0,3% á 3. ársfjórðungi í fyrra.

Í Tékkneska lýðveldinu varð samdráttur á 4. ársfjórðungi eftir hagvöxt tvo ársfjórðunga þar á undan. Betur horfði í Ungverjalandi en áður því  þar dró úr efnahagssamdrætti og mældist hann 0,4% á 4. ársfjórðungi.

Almennt talað virðist sem Evrópulönd séu að byrja að rétta úr kútnum eftir einhvern versta efnahagssamdrátt sem sögur fara af. Talið er að leiðin upp á við verði hægfarin og brösótt vegna þess að fjárfestingar í atvinnulífi og kaupgleði neytenda virðast enn vera í tregasta lagi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert