Móður og sambýlismaður hennar sem sökuð voru um að hafa myrt sjö ára dóttur hennar með því að selta hana í hel hafa gengist við morðinu. Greint er frá málinu á vef breska ríkisútvarpsins.
Fjölskyldan bjó í Birmingham á Bretlandi og atvikið á að hafa átt sér stað árið 2008. Sambýlismaðurinn var upphaflega ákærður fyrir morð, en fallið var frá þeirri ákæru og verður hann aðeins sóttur til saka fyrir manndráp af gáleysi eftir að gögn voru lögð fram við réttarhöldin, sem nú standa yfir, sem sýndu fram á að hann væri andlega vanheill.
Verjendur móðurinnar hafa haldið því fram að hún hafi aðeins orðið valdur af manndrápi af gáleysi, en ákæruvaldið heldur fast við að sækja hana til saka fyrir morð.
Við réttarhöldin kom fram að dótturinni hefði, ásamt fimm öðrum börnum sem voru í umsjón parsins, verið neitað um mat.
Sambýlismaðurinn lýsti því við réttarhöldin hvernig honum hefði verið misþyrmt þegar hann sjálfur var barn og hvernig hann varð vitni að því þegar faðir hans barði yngri systur hans til bana þegar hann var aðeins fimm ára.
Hann lýsti því fyrir réttinum hvernig hann hefði sjálfur barið stúlku sambýliskonu sinnar með göngustaf og neytt hana til þess að standa úti í köldum veðrum og síðan hellt yfir hana köldu vatni. Þegar saksóknari spurði hann hvort hann kenndi sjálfum sér um dauða hennar svaraði hann því játandi.
Fram kom við réttarhöldin að sambýlismaðurinn væri þjakaður af geðklofa og hefði fundist að andlit dóttir sambýliskonu hans væri undarlegt vegna þess að hún væri andsetin.
Stúlkan lést í maí árið 2008. Hún fannst á heimili fjölskyldunnar í Birmingham og hafði augljóslega ekki fengið neina næringu um lengri tíma.