Uppbyggingin á Haítí eftir jarðskjálftann, sem reið þar yfir í janúar, gæti kostað allt að 14 milljarða dala, jafnvirði 1800 milljarða íslenskra króna, samkvæmt áætlun Ameríska þróunarbankans. Gangi þessi áætlun eftir er tjónið, sem jarðskjálftinn olli, það mesta í fjármunum talið, sem um getur í nútímasögunni.
Þetta kemur fram í skýrslu frá þróunarbankanum, sem er með höfuðstöðvar í Washington. Segir þar að tjónið í skjálftanum sé metið á 8-14 milljarða dala en stór hluti höfuðborgar Haítí, Port-au-Prince, er rústir einar.
Að minnsta kosti 217 þúsund manns létu lífið af völdum skjálftans, sem mældist 7 stig. Um 1,2 milljónir manna eru heimilslausar.