70 blaðamenn létust við störf sín

Löngum hefur verið sagt að penninn sé máttugri en sverðið.
Löngum hefur verið sagt að penninn sé máttugri en sverðið. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Alls týndu 70 blaða- og fréttamenn lífinu á síðasta ári við störf sín. Þeirra á meðal voru 31 blaðamaður frá Filippseyjum. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Nefndar sem vernda vill blaðamenn (Committee to Protect Journalists skammstafað CPJ) sem gefin er út árlega.

Skýrsla nefndarinnar spannar 350 bls. en í henni er gert grein fyrir dauðsföllum síðasta árs sem eru þau mestu á einu ári. Samkvæmt því sem fram kemur í skýrslunni hafa aldrei fleiri blaðamenn látið lífið við störf sín í einum og sama viðburðinum eins og á Filippseyjum þar sem fjöldamorð voru framin í  Maguindanao-héraði í tengslum við héraðsstjórnarkosningar.

Til samanburðar má geta þess að árið 2007 létust 67 blaða- og fréttamenn við störf sín, en árið 2008 létust 41.

Í skýrslunni kemur einnig fram að 1. desember sl. sátu alls 136 blaðamenn, ritstjórar og blaðaljósmyndarar bak við lás, en það eru 11 fleiri en á sama tíma árið áður.

Líkt og verið hefur sl. 10 ár eru flestir blaðamenn og ljósmyndarar á bak við lás og slá í Kína, en alls eru 24 þar í haldi. Fast á hæla Kínverjum eru Íranar, Kúbumenn, Erítreumenn og stjórnvöld í Myanmar sem einnig nefnist Búrma.

Maziar Bahari, íranskur-kanadískur fréttaritari hjá Newsweek, sem hnepptur var í fangelsi í Íran í júní á síðasta ári og sleppt að fjórum mánuðum liðnum, sagði við útgáfu skýrslunnar að meira en 100 blaðamenn, bloggarar og rifhöfundar hefðu verið handteknir í Íran síðan deilurnar spruttu upp í landinu um mitt síðasta sumar í tengslum við forsetakosningarnar. Sagði hann að enn væru um 65 þeirra bak við lás og slá.

Lesa má það út úr skýrslunni að Írak er ekki jafn hættulegur staður fyrir blaðamenn og verið hefur. Á síðasta ári voru fjórir blaðamenn drepnir þar í landi, en það er lægsta talan síðan Bandaríkjamenn réðust inn í landið árið 2003.

Hins vegar fjölgaði morðum á blaðamönnum í Sómalíu, en þar voru níu drepnir á síðasta ári.

Líkt og fyrri ár eru morð helsta dánarorsök blaðamanna að störfum. Þannig voru a.m.k. 51 blaðamaður, eða 75%, þeirra sem létust við störf sín á síðasta ári ráðnir af dögum.




mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert