Talsmaður þeirra sem urðu fyrir kynferðisofbeldi af hendi kaþólskra presta á Írlandi segir gjörðir mikilvægari en orð. Viðbrögð hans koma í framhaldi af því að fulltrúi Benedikts páfa sexánda sem hyggst sækja Dyflinni heim, hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir að hafna boði um að mæta fyrir sérstaka þingmannanefnd.
John Kelly, stofnandi Irish Survivors of Child Abuse group (SOCA) sagðist vonast til þess að páfi myndi sjálfur leggja leið sína til Írlands og biðja fórnarlömb kynferðisofbeldisins afsökunar. Benedikt páfi hefur hvatt írska biskupa til þess að endurreisa „siðferðislegan trúverðugleika“ kirkjunnar.
„Írar og fórnarlömbin eiga að geta vænst ákveðinna viðbragða frá páfanum,“ segir John Kelly. „Við hljótum að geta vænst þess að páfinn láti þá sem frömdu þessa glæpi og einnig þá sem hylmdu yfir með brotamönnum, þeirra á meðal biskupa, sæta ábyrgð.“
„Við hljótum að geta vænst þess að páfinn endurreisi heiður írsku þjóðarinnar sem hefur beðið hnekki í þeim hneykslismálum sem upp hafa komið, ekki síst af hálfu hinna svokölluðu prinsa írsku kirkjunnar.“
Benedikt páfi hefur í dag, annan daginn í röð, átt fundi með um tuttugu írska biskupa til þess að leita lausna á hneykslismálinu sem komið hefur einna verst við kaþólsku kirkjuna á Írlandi.
Sean Brady kardináli fer fyrir írsku sendinefndinni. Hann átti, ásamt Diarmuid Martin erkibiskupinum í Dyflinni, fund með páfa í desember sl. þar sem rætt var um hneykslismálið í framhaldi af tveimur réttarfarslegum rannsóknarskýrslum um kynferðisofbeldið.
Í yfirlýsingu að fundi þeirra loknum ávítti hann írsku biskupana og hvatti þá til þess að endurreisa „andlegan og siðferðislegan trúverðugleika“ kirkjunnar. „Allir sem þátt tóku í fundinum viðurkenndu að þessi alvarlega kreppa hefði leitt til þverrandi trausts á leiðtogum kirkjunnar,“ sagði hann og sagði kynferðisofbeldi gagnvart börnum vera „hræðilegur glæpur“ og „alvarleg synd.“
Að mati Kellys felast í viðbrögðum Vatíkansins jákvæð merki, en tekur fram að páfinn verði að komast til botn í málinu og leita sannleikans.
„Við viljum að páfinn, þ.e. kirkjan, greiði fórnarlömbum skaðabætur. Auk þess viljum við að hann losi kirkjuna við alla þá biskupa sem hafa brotið af sér og í framhaldinu getur hann komið til Írlands og beðið fórnarlömbin afsökunar,“ segir hann.
Á sama tíma er fulltrúi Vatíkansins í Dyflinni harðlega gagnrýndur fyrir að vilja ekki hitta þingmannanefnd. Giuseppe Leanza, erkibiskupi, var boðið á fund utanríkismálanefndar í framhaldi af því að réttarfarsleg rannsókn leiddi í ljóst óskað hefði verið eftir öllum upplýsingum frá Vatíkaninu um kynferðislegt ofbeldi sem prestar hafi beitt í Dyflinni en engin svör borist við þeirri beiðni frá Vatíkaninu.
Í bréf sínu til nefndarinnar sagði Leanza „ekki hefð fyrir því hjá páfadómi að sendiherrar páfa mæti fyrir þingmannanefndir.“
Alan Shatter, einn nefndarmanna, lét hafa eftir sér að á sama tíma og viðurkennt væri í Róm að prestar kaþólsku kirkjunnar á Írlandi hefðu gerst sekir um að beita börn viðbjóðslegu kynferðislegu ofbeldi væri ákvörðun sendifulltrúans „ekki aðeins sorgleg heldur fullkomlega óskiljanleg.“