Grikkjum hótað refsiaðgerðum

George Papandreou forsætisráðherra Grikklands hefur staðið í stöngu að undanförnu.
George Papandreou forsætisráðherra Grikklands hefur staðið í stöngu að undanförnu. Reuters

Grískum stjórnvöldum hefur verið tjáð að þau verði að minnka fjárhagahallann sem annars stefnir í. Að öðrum kosti muni landið verða beitt refsiaðgerðum. Þetta er haft eftir Jean-Claude Juncker, yfirmanni Evrusvæðisins. Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpsins.

Í samtali við þýska ríkisútvarpið sagði hann að Grikkir yrðu að skilja að önnur lönd á evrusvæðinu væru ekki tilbúnir til þess að greiða fyrir mistök Grikkja.

Síðan forsvarsmenn Evrópusambandsins ákváðu í síðustu viku að aðstoða Grikkja hefur tónninn í viðmóti þeirra breyst nokkuð og er orðinn býsna harður. Ein helsta ástæða þessa er talin þau óánægjuviðbrögð sem tal um björgunaraðgerðir hafa vakið.

Vandræði Grikkja hafa haft neikvæð áhrif á gengi evrunnar sl. níu mánuði.

Juncker, sem er formaður þeirra 16 landa sem tekið hafa upp evruna, sem og forsætisráðherra Lúxemborgar hafa látið hafa eftir sér að grísk stjórnvöld hafi fallist á að kynna hugmyndir að frekari niðurskurði í mars sé það talið nauðsynlegt.

Juncker tók fram að gripið yrði til harðari aðgerða gegn Grikkjum ef ekki væri búið að kynna aðgerðir stjórnvalda þar í landi til að ná niður fjárlagahallanum fyrir 16. mars nk.

Skuldavandi Grikkja er „fyrst og fremst vandi grískt vandamál og innanlandsvandi Grikkja,“ sagði Juncker.

Leiðtogar Evrópusambandsins hétu því í liðinni viku að rétta Grikkjum hjálparhönd, hins vegar kom ekki fram nákvæmlega í hverju sú hjálp yrði fólgin.

„Við munum ekki svíkja Grikkland,“ sagði Christine Lagarde, fjármálaráðherra Frakklands og bætti við: „Það er alveg ljóst að við erum öll á sama báti.“

Grísk stjórnvöld hyggjast sem kunnugt er lækka fjárlagahallann úr 12,7% í 8,7&% á árinu 2010. Þær aðgerðir sem þegar hafa verið kynntar hafa mætt mikilli andstöðu meðal almennings og brugðist hefur verið við með kröfugöngum og verkfallshótunum.

George Papaconstantinou, fjármálaráðherra Grikklands, hefur óskað eftir því að forsvarsmenn evrulandanna opinberi í hverju stuðningur þeirra við Grikkland muni felast. Að mati Juncker væri það hins vegar óviturlegt að birta þær upplýsingar opinberlega. Papaconstantinou hefur ítrekað sagt að Grikkir séu ekki að biðja um fjárhagsaðstoð frá Brussel.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert