Barack Obama Bandaríkjaforseti hyggst veita lánatryggingu fyrir 8 milljörðum bandaríkjadala til þess að hægt sé að byggja tvö ný kjarnorkuver. Þetta verða fyrstu nýju kjarnorkuverin sem byggð eru í Bandaríkjunum í 30 ár. Frá þessu er greint á vef danska dagblaðsins Politiken.
Obama leggur áherslu á að kjarnorka muni gegna mikilvægu hlutverki í bandarískri orkupólitík.
„Þegar kemur að spurningum um efnahag og öryggi landsins sem og framtíð plánetunnar getum við ekki haldið fast í gamlar deilur sem snúast um vinstri- og hægripólitík eða deilur milli umhverfisverndarsinna og þeirra sem koma hlutum í framkvæmd,“ segir Obama.
Hann nýtur stuðnings á báðum fylkingum á Bandaríkjaþingi, m.a. af því að bygging kjarnorkuveranna mun skapa fjölda nýrra starfa.
„Þessi mannvirki munu skapa þusundir starfa í byggingariðnaði á komandi árum og 800 störf til frambúðar, en um er að ræða vel borguð störf í framtíðinni. Og þetta er aðeins byrjunin,“ lofar forsetinn.
Hann leggur auk þess áherslu á að kjarnorkan geti orðið lykill að því að Bandaríkjamenn þurfi ekki að vera jafn háðir olíuinnflutningi og geti þess í stað framleitt græna orku.
„Til þess að mæta vaxandi orkuþörf okkar og koma í veg fyrir verstu afleiðingar loftlagsbreytinga verðum við að auka framleiðsluna úr kjarnorku. Svo einfalt er það,“ segir Obama.
Um fimmtungur af orku Bandaríkjamanna kemur frá kjarnorkuverum, en ekki hafa verið byggð ný kjarnorkuverk síðan 1979 þegar kjarnorkuslys varð í kjarnorkuverinu Three Mile Island í Pennsylvaníu.
Samkvæmt heimildum frá Hvíta húsinu verða kjarnorkuverin tvö byggð í Burke í Georgíu.