Rútubílstjóranum ókunnugt um hraðatakmarkanir

Forstjóri rútufyrirtækisins, sem átti rútuna sem lenti í alvarlegu umferðaróhappi á þýsku hraðbrautinni nærri Dessau um liðna helgi, viðurkennir að bæði hann og bílstjórinn hafi misskilið þýskar reglur um hámarkshraða. Frá þessu er greint á vef danska dagblaðsins Politiken.

„Mér þykir þetta mjög leiðinlegt,“ skrifar Mogens Pedersen, forstjóri hjá Egons Turistbusser í fréttatilkynningu sem hann hefur sent frá sér.

Þrjár fullorðnar manneskjur létu lífið í rútuslysinu og fjöldi farþegar slasaðist, en rútan var full af börnum, foreldrum þeirra og leiðbeinendum sem voru á leið til Austurríkis í skíðaferð.

„Leyfilegur hámarkshraði fyrir umrædda rútu var 100 km/klst á þýskum hraðbrautum. Það sama á við um tengivagninn sem rútan var með í eftirdragi. Þýska lögreglan hefur nokkrum sinnum tekið ökutæki okkar út og samþykkt að þeim væri ekið á 100 km hraða,“ segir Mogens Pedersen.

„Nú hefur mér hins vegar verið bent á að aðeins megi keyra 80 km/klst með þessa tilteknu samsetningu á rútu og tengivagni, þó að aka megi báðum ökutæki hvoru um sig á 100 km hraða,“ upplýsir Mogens Pedersen.

„Bílstjórinn sem ók slysarútunni hefur vitanlega talið, líkt og ég, að aka mætti rútunni á 100 km/klst. Það er á mína ábyrgð að þekkja lög og reglur til fullnustu og mér þykir það mjög leiðinlegt að ég, sem var sjálfur í góðri trú, hafi gefið rangar upplýsingar,“ segir Mogens Pedersen.

Hann leggur áherslu á að ekki sé enn vitað hvort of hár hraði hafi valdið óhappinu. Segist hann bíða niðurstöðu þýskra lögregluyfirvalda.

Bílstjórinn, sem sjálfur slasaðist lítillega, hefur verið kærður fyrir manndráp af gáleysi. Að sögn saksóknara í Þýskalandi bendir allt til þess að bílstjórinn hafi ekið of hratt miðað við aðstæður, en talsverður snjór var á hraðbrautinni við Dessau suður af Berlín þegar slysið varð.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert