Böndin berast að Mossad

Yfirvöld í Dubai hafa sýnt myndbandsupptökur úr eftirlitsmyndavélum þar sem …
Yfirvöld í Dubai hafa sýnt myndbandsupptökur úr eftirlitsmyndavélum þar sem meintir tilræðismenn sjást. Þeir eru grunaðir um morðið á Mahmoud al-Mabhouh, háttsettum herforingja Hamas-samtakanna. Reuters

Böndin berast nú mjög að Mossad, leyniþjónustu Ísraels, vegna morðs á háttsettum Hamas-liða í Dubai. A.m.k. sjö ísraelskir ríkisborgarar segja að hinir meintu tilræðismenn hafi stolið persónuupplýsingum þeirra. Talið er að tilræðismennirnir séu útsendarar leyniþjónustu Ísraelsríkis.

Mahmud al-Mabhuh, háttsettur herforingi Hamas samtaka Palestínumanna, var í vopnakaupaleiðangri í Dubai þegar hann var myrtur á hótelherbergi sínu í síðasta mánuði. Mossad hefur verið kennt um tilræðið, þótt engar haldbærar sannanir tengi leyniþjónustuna við morðið. Mossad hefur ekkert tjáð sig að venju.

Grunsemdirnar styrktust eftir að yfirvöld í Dubai birtu myndir og nöfn ellefu einstaklinga sem komu inn í landið og framvísuðu evrópskum vegabréfum. Sex voru frá Bretlandi, þrjú frá Írlandi, eitt frá Þýskalandi og eitt frá Frakklandi. Grunur leikur á að þetta fólk tilheyri aðgerðateyminu sem myrti Mabhuh.

Yfirvöld í Bretlandi, Frakklandi og Írlandi tilkynntu skömmu síðar að vegabréfin væru fölsuð og að a.m.k. sjö hinna meintu tilræðismanna reyndust einnig vera með ríkisborgararétt í Ísrael. Svo virðist sem að vegabréfum þeirra hafi verið stolið.

„Allt frá því að ég uppgötvaði að þeir notuðu persónuupplýsingar mínar og nafn hef ég gengið um eins og uppvakningur,“ sagði Paul John Keally, bresk-ísraelskur ríkisborgari, í samtali við ísraelska fjölmiðla.  Í samtali við Daily Mail í Bretlandi sagði hann:

„Ég vaknaði í morgun og skyndilega varð líf mitt eins og í njósnaramynd. Þetta veldur mér áhyggjum, en ég veit að ég hef ekki gert neitt rangt. Ég hef ekki farið frá Ísrael í tvö ár og hef örugglega ekki verið í Dubai nýlega.“

Fréttavefur Daily Telegraph í London greinir frá því að tveir menn af palestínskum ættum séu í haldi í Dubai í tengslum við morðið á al-Mabhuh. Þeir eru grunaðir um að hafa veitt tilræðismönnunum upplýsingar um dvalarstað hans. Tvímenningarnir eru báðir búsettir í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

Dahi Kalfan, lögreglustjóri í Dubai, segir að þeir hafi „flúið til Jórdaníu“ eftir að lík al-Mabhuh fannst. Mennirnir fengust framseldir frá Jórdaníu fyrir þremur dögum. Sterkur grunur leikur á að annar þeirra hafi hitt einn hinna meintu tilræðismanna fyrir morðið.

Mahmoud al-Mabhouh, háttsettur herforingi Hamas var myrtur í Dubai 20. …
Mahmoud al-Mabhouh, háttsettur herforingi Hamas var myrtur í Dubai 20. janúar s.l. Reuters
Dahi Khalfan Tamim, lögreglustjóri í Dubai, á fréttamannafundi. Á bakvið …
Dahi Khalfan Tamim, lögreglustjóri í Dubai, á fréttamannafundi. Á bakvið hann sést mynd af einum hinna ellefu grunuðu tilræðismanna sem gekk undir nafninu Peter Elvinger. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert