Lawrence Cannon, utanríkisráðherra Kanada, ver nú þá ákvörðun sína að bjóða aðeins fimm strandríkjum Norðurskautsráðsins til fundar í Chelsea í Quebec í Kanada seint í næsta mánuði. Frá þessu er sagt á vef kanadíska ríkissjónvarpsins.
Líkt og fram hefur komið bauð Cannon aðeins utanríkisráðherrum Noregs, Rússlands, Danmerkur fyrir hönd Grænlands og Bandaríkjunum. Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra Íslands, mótmælti þessari ráðstöfun og sagði þetta ranga leið.
Venjulega fara umræður um Norðurskautið fram á vegum Norðurskautsráðsins, en í því sitja fulltrúar ríkisstjórna allra þeirra átta landa sem tilheyra Norðurskautinu sem og fulltrúar frumbyggja.
Össur sagði í samtali við CBC News fyrr í þessari viku að sér fyndist eðlilegt að allir fulltrúar Norðurskautsráðsins sætu fundinn í Kanada. Vísaði hann þar til Íslendinga, Finna og Svía.
Í tölvupósti sem starfsmaður á skrifstofu Cannon sendi CBC News fyrr í dag kemur fram að markmið fundarins í næsta mánuði sé að einblína „á umræðuefni sem snúi sérstaklega að strandríkjum Norðurskautsráðsins, sem venjulega væru ekki rædd innan Norðurskautsráðsins.“
Embættismaðurinn skrifaði einnig að hugsunin með fundinum væri sú að þetta gæti orðið viðbót við vinnu Norðurskautsráðsins.
Fulltrúar strandríkjanna fimmm, sem liggja að Norður-Íshafi og geta gert tilkall til hafsbotns þess samkvæmt hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna, hafa verið boðaðir á fundinn.
Utanríkisráðherra Danmerkur, sem jafnframt er formaður Norðurskautsráðsins, hefur fallist á að flytja ráðinu skýrslu af því sem fram fer á fundi strandríkjanna fimm í mars.
Haft hefur verið eftir talsmanni kanadíska utanríkisráðuneytisins að Finnar hafi fallist á þá tilhögun.
Fulltrúar frumbyggja á norðurslóðum hafa einnig mótmælt því að vera ekki boðið til þess fundar og telja að þeim hefði átt að vera boðið.
Haft var eftir talsmanni Cannons að hann hygðist leita álits hjá ráðgjafarnefnd Norðurskautsráðsins, en í þeirri nefnd sitja fulltrúar frumbyggja og annarra norrænna svæða, áður en til fundarins kemur í Kanada í næsta mánuði.