Hollenska stjórnin að springa?

Wouter Bos, fjármálaráðherra Hollands, er á leið úr stjórninni, enda …
Wouter Bos, fjármálaráðherra Hollands, er á leið úr stjórninni, enda hefur fylgi Verkamannaflokksins hrunið. Reuters

Yfirgnæfandi líkur eru á að hollenska ríkisstjórnin springi á næstu sólarhringum vegna harðvítugra innbyrðis deilna, að mati Thijs Peters, fréttaritstjóra hjá hollensku vefsíðunni Z24. Ágreiningur um Afganistan er eitt helsta ágreiningsefnið.

Aðspurður hvernig hann meti líkurnar á því að stjórnin falli kveðst Peters ætla að þær séu um 90%.

Peters tekur jafnframt fram, eins og ætla má, að Icesave-deilan sé hér í aukahlutverki.

Hann metur jafnframt stöðuna svo að stjórnarslitin muni hafa lítil áhrif á stöðu Icesave-málsins, enda geti Wouter Bos fjármálaráðherra undirritað samning svo framarlega sem hann njóti stuðnings meirihluta þingsins.

Þann stuðning eigi hann vísan enda sé ekki upp neinn raunverulegur ágreiningur á milli hinnar fráfarandi stjórnar og stjórnarandstöðunnar í málinu.

Málið sé ekki ofarlega á blaði enda séu 1,3 milljarðar evra - sá hluti krafnanna sem snýr að Hollandi - óverulegt fé í hollensku samhengi.

Deilt um framhaldið í Afganistan

Að sögn Peters hafa deilur um næstu skref í Afganistan valdið mikilli gjá á milli Kristilegra demókrata og Verkamannaflokksins í stjórninni sem birtist nú í líklegum stjórnarslitum.

En Bos er einmitt jafnaðarmaður.

Flokkur hans, Verkamannaflokkurinn, hefur hrunið í fylgi og má því leiða að því líkur að jafnaðarmenn séu á leið úr stjórn í Hollandi.

Inntur eftir því hvenær efnt verði til kosninga segir Peters að þótt of snemmt sé að skera úr um það megi ætla að kosið verði í maí.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert