Krefjast svara um vegabréf

Micheal Martin utanríkisráðherra Írlands segir að sendiherra Ísraels hafi verið kallaður á fund í Dublin í dag vegna þess að meintir morðingjar háttsetts Hamas-manns notuðu fölsuð írsk vegabréf. Bresk stjórnvöld hafa einnig kallað sendiherra Ísraels á sinn fund vegna málsins.

Martin utanríkisráðherra Íra sagði í þætti á RTE ríkisútvarpsstöðinni að það að grunaðir morðingjar Mahmud al-Mabhuh hafi notað fölsuð írsk vegabréf sé „ákaflega alvarlegt“.

„Við höfum beðið sendiherra Ísraels að koma í ráðuneytið (utanríkisráðuneytið) í dag til að ræða við hann,“ sagði Martin. „Við munum spyrja beinskeittra spurninga og leita aðstoðar og skýringa. Við viljum fá svör svo fljótt sem auðið er,“ bætti hann við. Hann sagði að atvikið ógni öryggi írskra ríkisborgara.

Stjórnvöld í Dublin hafa áður lýst því yfir að persónuupplýsingar um þrjá handhafa írskra vegabréfa í hópi hinna ellefu meintu hryðjuverkamanna  séu falsaðar.

Martin sagði seint í gær að írsk stjórnvöld hafi fengið upplýsingar frá yfirvöldum í Sameinuðu arabísku furstadæmunum sem bendi til þess að rétt írsk vegabréfsnúmer hafi verið notuð. 

Fréttavefur BBC greinir frá því að bresk stjórnvöld hafi kallað sendiherra Ísraels á sinn fund til að ræða notkun meintra morðingja Hamas-liðans í Dubai á fölsuðum breskum vegabréfum. 

Ísraelsmenn hafa sagt að engin sönnunargögn bendli leyniþjónustu þeirra, Mossad, við morðið 20. janúar síðastliðinn. 

Gordon Brown forsætisráðherra Breta hefur fyrirskipað rannsókn á vegabréfanotkun hinna meintu tilræðismanna Mabhouhs en sex þeirra notuðu vegabréf með nöfnum sex einstaklinga sem bæði hafa ríkisborgararétt í Bretlandi og Ísrael.

Fréttavefur Daily Telegraph segir að Bretar hugleiði að skera á  upplýsingamiðlun til ísraelsku leyniþjónustunnar Mossad ef það  sannast að útsendarar hennar hafi stolið persónuupplýsingum breskra ríkisborgara.

Lögreglan í Dubai birti myndir af hinum meintu tilræðismönnum. Þeir …
Lögreglan í Dubai birti myndir af hinum meintu tilræðismönnum. Þeir voru með fölsuð evrópsk vegabréf, þar á meðal frá Írlandi. Reuters
Einn hinna grunuðu sem ferðuðust á írsku vegabréfi gekk undir …
Einn hinna grunuðu sem ferðuðust á írsku vegabréfi gekk undir nafninu Evan Dennings. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert