Kínverska utanríkisráðuneytið í Peking hefur kallað sendiherra Bandaríkjanna í Kína á fund til að mótmæla fundi, sem Barack Obama, Bandaríkjaforseti, átti með Dalai Lama, andlegum leiðtoga Tíbeta, í Hvíta húsinu í gær.
Þar lýsti Obama yfir stuðningi við menningu Tíbeta og lagði áherslu á mannréttindi Tíbeta. Einnig hvatti hann til viðræðna milli Dalai Lama og kínverskra stjórnvalda.
Obama gaf hins vegar ekki út neina formlega yfirlýsingu eftir fundinn með Dalai Lama. Engin sérstök móttökuathöfn var þegar Dalai Lama kom í Hvíta húsið og fundur þeirra Obama var haldinn í svonefndu Kortaherbergi þar sem einafundir forseta eru oft haldnir. Hvíta húsið sendi frá sér eina mynd sem sýnir þá Obama og Dalai Lama ræðast við yfir tebolla.
Allir Bandaríkjaforsetar frá árinu 1991 hafa átt fundi með Dalai Lama og viðbrögð Kínverja hafa verið svipuð í öll skiptin. Sérfræðingar segja, að samskipti þjóðanna hafi hins vegar færst í samt lag eftir nokkra mánuði.