Þó efnahagslíf í Bandaríkjunum sé sagt á réttri leið, er fjöldi nauðungaruppboða enn vaxandi. Uppruni fjármálakreppunnar í Bandaríkjunum hefur enda verið rakinn til svokallaðra undirmálslána, þar sem húsnæðislán voru veitt fólki sem taldist ótryggir lántakendur.
Í dag lýsti Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, því yfir í Nevada, að hann myndi hjálpa fólki sem skuldaði umfram markaðsverð af húsum sínum, til að finna leið til að borga húsnæðislánin sín þannig að bæði lántakendur og lánveitendur gætu við unað. Í því skyni setti hann einn og hálfan milljarð bandaríkjadala, jafnvirði um 195 milljarða króna, í sjóð sem fjármagnar húsnæðislánastofnanir í fylkjum Kaliforníu, Flórída, Nevada, Arizona og Michigan.
Segir Obama að fjárveitingin
eigi að hjálpa atvinnulausum fasteignaeigendum að komast hjá
nauðungaruppboðum. Fjármagninu verður dreift á milli stofnana og getur farið til
hjálpar atvinnulausum fasteignaeigendum, eða þeirra sem eiga eignir þar sem
húsnæðislánið er komið yfir markaðsverðmæti. Húsnæðisverð hefur fallið um rúm
20% frá því það náði hámarki í þessum fylkjum.
Fréttastofa Reuters bendir á að það þyki hins vegar engin tilviljun að Obama hafi valið að tilkynna um fjárveitinguna í Nevada fylki sem er enn að vinna sig upp úr hruni á fasteignamarkaðinum. Er þar vísað til þess að Obama sé að launa þingmanni Demókrata, Harry Reid sem reynir að vinna upp verulega forystu Repúblikana í fylkinu en kosningar sem framundan eru í nóvember geta breytt valdahlutföllum í þinginu. Reid hefur veitt Obama liðsinni við að koma hans málefnum gegnum þingið en legið undir ámæli Repúblikana sem segja hann gleyma eigin fylki.