Óvenju snarpur jarðskjálfti varð í Danmörku í kvöld. Skjálftinn mældist 4,7 stig á Richter og voru upptök hans á botni Norðursjávar um það bil 45 km norðvestur af Thyborøn á Jótlandi. Jarðskjálftarfræðingar segja að skjálftar af þessari stærð verði aðeins á um 10 ára fresti í Danmörku.
Jótlandspósturinn hefur eftir Stig Asbjørn Schack Pedersen, jarðfræðingi hjá jarðfræðistofnun Danmerkur og Grænlands, að jarðskjálftar, sem mælist í Danmörku, séu venjulega ekki öflugri en 2,5-3 stig.
Skjálftinn fannst víða á Jótlandi en ekki er vitað til að neitt tjón hafi orðið.