Robert Mugabe, forseti Zimbawe, fagnar í dag 86 ára afmæli. Engin merki eru um að hann ætli að draga sig í hlé, en hann hefur stýrt landinu í þrjá áratugi. Á þeim tíma hefur landið orðið æ fátækara.
Ekkert bendir til annars en að Mugabe ætli sér að vera í embætti forseta svo lengi sem hann lifir. Flokkur Mugabe, Zanu, fagnaði afmæli leiðtogans í dag, en sjálfur var forsetinn með fjölskyldu sinni á afmælisdaginn.
Þrátt fyrir að íbúar Zimbawe búi flestir við sára fátækt nýtur Mugabe fylgis víða í Afríku fyrir að hafa staðið upp í hárinu á Vesturlöndum. Zanu kaus Mugabe leiðtoga flokksins í desember til næstu fimm ára. Það þýðir að Mugabe verður sjálfkrafa frambjóðandi flokksins í næstu forsetakosningum sem eiga að fara fram 2013. Þá verður hann 89 ára gamall.